Reglur um hæfi lykilstarfsmanna T Plús hf.

1.  Inngangur

Reglur þessar eru settar á grundvelli leiðbeinandi tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 3/2010, um hæfi lykilstarfsmanna sbr. lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Markmið reglnanna er að skapa traust og stuðla að trúverðugleika T Plús hf. (hér eftir nefnt félagið) og starfsmanna þess með því að skilgreina kröfur sem gerðar eru til lykilstarfsmanna.  Við ráðningu skulu lykilstarfsmenn undirgangast hæfismat sem er ætlað að tryggja að þeir hafi þá færni, þekkingu og sérfræðikunnáttu  sem er nauðsynleg til að inna af hendi þau verkefni sem þeim eru falin.  Hæfismatinu er auk þess ætlað að meta orðspor og heilindi viðkomandi.

2. Lykilstarfsmaður
Með lykilstarfsmanni í reglum þessum er átt við einstakling í stjórnunarstarfi, annar en framkvæmdastjóri, sem hefur umboð til að taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á framtíðarþróun og afkomu félagsins.

Framkvæmdastjóri tekur ákvörðun um hvaða störf hjá félaginu teljast lykilstörf.  Félagið skal halda skrá yfir hverjir teljist til lykilstarfsmanna og hvers vegna viðkomandi störf teljist til lykilstarfa.

3. Mat á hæfi lykilstarfsmanna
Framkvæmdastjóri og/eða skrifstofustjóri framkvæma hæfismat á öllum lykilstarfsmönnum í samræmi við 4. grein. Fjármálaeftirlitið framkvæmir mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra.

Að jafnaði er heimilt að meta þekkingu viðkomandi á þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda og viðkomandi þarf að kunna skil á eftir að viðkomandi hefur hafið störf. Flytjist starfsmaður á milli lykilstarfa metur framkvæmdastjóri hvort ástæða sé til að endurtaka hæfismat.

4. Framkvæmd hæfismats

Til þess að meta hæfi lykilstarfsmanna skal félaginu vera heimilt að kanna:

 • Hvort viðkomandi sé lögráða
 • Fjárhagsstöðu
 • Hvort viðkomandi hafi verið úrskurðarður gjaldþrota
 • Menntun, þekkingu og starfsreynslu
 • Nauðsynlega þekkingu á þeim lögum og reglum sem um starfsemina gilda
 • Hvort viðkomandi sæti ákæru eða sakamálarannsókn
 • Hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm og þá hvers eðlis hann er

Framangreind atriði skulu metin heildstætt með hliðsjón af því starfi sem um er að ræða, hæfni viðkomandi og orðspori félagsins.

Eftirtaldar upplýsingar skulu almennt liggja fyrir við ákvörðun um ráðningu lykilstarfsmanns:

 • Útfylltur spurningalisti
 • Upplýsingar um hvort viðkomandi hafi hlotið refsidóm, t.d. sakarvottorð
 • Upplýsingar um hvort viðkomandi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota, t.d. búforræðisvottorð
 • Upplýsingar um hvort starfsmaður sé í vanskilum

 Framkvæmdastjóri getur kallað eftir frekari gögnum ef þurfa þykir. Verði breytingar á högum viðkomandi lykilstarfsmanns, sem kunna að hafa áhrif á hæfi hans, ber honum skylda til að tilkynna um slíkt til framkvæmdastjóra.

5. Niðurstaða hæfismats
Framkvæmdastjóri skal eins fljótt og kostur er tilkynna umsækjanda/starfsmanni skriflega hvort hann hafi staðist hæfismat. Hafi viðkomandi ekki sýnt fram á fullnægjandi þekkingu á þeim lögum og reglum sem til umfjöllunar voru í hæfismatinu, skal gefa honum kost á því að endurtaka matið innan fjögurra vikna frá því að niðurstað lá fyrir. Hafni viðkomandi því að endurtaka matið eða standist hann það ekki, telst hann ekki hæfur til að gegna lykilstarfi hjá félaginu.

6. Annað
Við gildistöku reglna þessara mun framkvæmdastjóri meta stöðu núverandi lykilstarfsmanna. Telji framkvæmdastjóri félagsins að aðili uppfylli ekki kröfur félagsins skal hann ákveða hvort viðkomandi verður boðið annað starf hjá félaginu, verði ekki ráðin til starfa hjá fyrirtækinu eða honum gert að láta af störfum hafi hann þegar hafið störf.

Reglur þessar öðlast gildi við undirritun stjórnar félagsins.

Reglur þessar skulu birtar á heimasíðu félagsins.

 

Akureyri, 14. mars 2012

Stjórn T Plús hf.