FLOKKUN VIÐSKIPTAVINA
FLOKKAR VIÐSKIPTAVINA
VIÐURKENNDUR GAGNAÐILI
Viðskiptavinur sem hefur flokkun sem viðurkenndur gagnaðili nýtur minnstrar verndar af öllum viðskiptavinum fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Á því er byggt að slíkur aðili hafi umfangsmikla reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu og þurfi þar af leiðandi ekki á jafnmikilli vernd og leiðsögn að halda og fagfjárfestir eða almennur fjárfestir.
Viðurkenndir gagnaðilar bera ábyrgð á að tilkynna fyrirtækinu um breytingar sem áhrif geta haft á flokkun þeirra sem og ef þeir telja flokkun sína ranga. Viðskiptavini í þessum flokki er frjálst að óska eftir aukinni vernd eða skipta um flokk og njóta þá verndar sem fagfjárfestir eða almennur fjárfestir.
FAGFJÁRFESTIR
Viðskiptavinur sem flokkaður er sem fagfjárfestir er talinn búa yfir þeirri reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu sem nauðsynleg er til að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir um fjárfestingar sínar og metið þá áhættu sem þeim fylgir. Skyldur T Plús hf. gagnvart fagfjárfestum eru minni en gagnvart almennum fjárfestum. Viðskiptavinur í þessum flokki þarf því sjálfur að óska eftir þeim upplýsingum sem hann telur nauðsynlegar til að taka ákvörðun um fjárfestingar. Mun T Plús hf. ekki leggja mat á þekkingu, reynslu eða fjárhagslegan styrk viðskiptavinar í þessum flokki þegar fjárfestingarþjónusta er veitt, heldur aðeins hvort tiltekin þjónusta sé í samræmi við markmið fjárfestis. Þegar T Plús hf. veitir viðskiptavini í þessum flokki fjárfestingarþjónustu er fyrirtækinu ekki skylt að meta hvort tiltekin þjónusta eða fjármálagerningar séu viðeigandi í ljósi þekkingar og reynslu viðkomandi fjárfestis. Þá er upplýsingagjöf til fagfjárfesta minni en til almennra fjárfesta.
Viðskiptavinur í þessum flokki getur óskað eftir því að vera færður í flokk almennra fjárfesta og öðlast við það meiri vernd en hann nýtur sem fagfjárfestir, almennt eða vegna einstakra viðskipta/tegunda viðskipta. Að sama skapi getur fagfjárfestir óskað eftir því að vera færður, að öllu leyti eða hluta, í flokk viðurkenndra gagnaðila og við það afsalað sér að hluta þeirrar verndar sem hann nýtur sem fagfjárfestir. Slík flokkun er þó háð skilyrðum, mati og samþykki T Plús hf. Fagfjárfestar bera ábyrgð á að tilkynna fyrirtækinu um breytingar sem áhrif geta haft á flokkun þeirra sem og ef þeir telja flokkun sína ranga.
ALMENNUR FJÁRFESTIR
Viðskiptavinur sem flokkaður er sem almennur fjárfestir nýtur mestrar verndar samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Í þessu felst meðal annars að T Plús hf. ber að veita slíkum viðskiptavini upplýsingar um fyrirtækið og þá þjónustu sem það býður upp á, þá fjárfestingakosti sem eru í boði og þá áhættu sem fylgir þeim og þau gjöld og þóknanir sem fylgja hverjum fjárfestingakosti. [A1]
Feli þjónustan í sér fjárfestingarþjónustu sem fellur ekki undir 44. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga skal leggja mat á þekkingu og reynslu viðskiptavinarins í því skyni að meta hvort að viðkomandi þjónusta eða fjármálagerningur sé viðeigandi fyrir hann. Í hóp almennra fjárfesta falla allir einstaklingar og smærri lögaðilar. Almennum fjárfestum er heimilt að óska eftir því að verða flokkaðir sem fagfjárfestar, almennt eða vegna einstakra viðskipta/tegunda viðskipta. Við slíka flokkun afsalar viðskiptavinur sér að hluta þeim réttindum og vernd sem hann ella myndi njóta samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga. Til þess að slík beiðni verði tekin til greina verður viðskiptavinur að uppfylla ákveðin skilyrði og er slík flokkun háð samþykki T Plús hf., sem þarf að leggja mat á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðkomandi og hvort hún veiti nægjanlega vissu fyrir því að hann geti sjálfur tekið ákvörðun um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst.
BREYTINGAR Á FLOKKUN
Viðskiptavinur hefur rétt á að óska eftir að falla í annan flokk. Viðskiptavinur getur óskað eftir að farið verður með hann sem almennan fjárfesti eða fagfjárfesti, hvort sem er í öllum viðskiptum eða í afmörkuðum viðskiptum.
Vakin er athygli á því að ekki eru gerðar jafn ítarlegar kröfur til T Plús um upplýsingagjöf til fagfjárfesta þar sem T Plús er heimilt að ganga út frá því að fagfjárfestar hafi þá reynslu og þekkingu sem nauðsynleg er til að skilja áhættuna sem felst í viðskiptum með fjármálagerninga.
Fagfjárfestar njóta minni verndar en almennir fjárfestar. Samþykkir T Plús slíka breytingu á flokkun mun viðskiptavinur afsala sér þeim réttindum, bótarétti og vernd sem hann kynni að njóta samkvæmt lögum nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga sem almennur fjárfestir. Um þetta má vísa til 53. gr. laga nr. 115/2021.
Óski viðskiptavinur eftir að falla í annan flokk er honum bent á að hafa samband við starfsmenn T Plús hf. í síma 575-3900 eða með tölvupósti á netfangið tplus@tplus.is.